Quantcast
Channel: Súpur og grautar – Ljúfmeti og lekkerheit
Viewing all 35 articles
Browse latest View live

Laksa með kjúklingi

$
0
0

Ég elska núðlusúpurnar á Núðluskálinni á Skólavörðustíg og þessi súpa minnir óneitanlega á þær. Uppskriftina fann ég í sænskri matreiðslubók sem heitir Kärlek, oliver och timjan. Þetta er gullfalleg bók eftir mægður og það er vel þess virði að eignast hana þó ekki væri nema bara til að skoða myndirnar því þær eru æðislegar. Uppskriftin er fyrir þrjá en við Öggi kláruðum súpuna upp til agna. Ég myndi því segja að hún sé fyrir tvo svanga.

  • 200 gr eggnúðlur
  • 4 skarlottulaukar
  • 100 gr ferskar baunaspírur eða 50 gr ferskt spínat
  • 1/2 lime í þunnum sneiðum
  • 2 kjúklingabringur
  • 1 msk jarðhnetuolía eða önnur olía
  • 5 cm bútur af fersku engiferi
  • 2 hvítlauksrif
  • 1/2 – 1 ferskt rautt chili
  • ca 2 msk rautt curry paste
  • 4 dl kókosmjólk
  • 4 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 1-2 msk fiskisósa
  • ferskt kóriander eða basilika

Takið hýðið af laukunum og skerið hann í þunnar sneiðar. Skolið baunaspírurnar eða spínatið vel. Skolið lime-ið og skerið í mjög þunnar sneiðar. Skrælið engiferið og skerið í örþunnar sneiðar. Takið hýðið af hvítlauknum og skerið í þunnar sneiðar. Fræhreinsið chili og skerið í þunna strimla. Skerið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar. Leggið þetta til hliðar á meðan súpan er undirbúin.

Leggið núðlurnar í pott með sjóðandi vatni og sjóðið þar til þær eru tilbúnar (ca 5 mínútur). Látið renna af núðlunum í sigti og skiptið þeim í 3 skálar. Setjið laukinn, baunaspírurnar eða spínatið og limesneiðarnar ofan á.

Steikið hvítlaukinn í olíu, bætið engiferi og curry paste í pottinn. Það er mikilvægt að láta curry paste-ið hitna það mikið að það sjóði því þá fyrst kemur bragðið fram og það fer að ilma dásamlega í eldhúsinu.

Bætið núna kókosmjólkinni saman við í smáum skömmtum. Hrærið vel á milli þannig að curry paste-ið nái að blandast vel með kókosmjólkinni í hvert skipti. Bætið síðan vatninu út í og kjúklingakraftinum. Látið suðuna koma upp og bragðbætið með fiskisósunni. Leggið kjúklingabitana í og látið sjóða í 5-7 mínútur eða þar til kjúlingabitarnir eru soðnir í gegn. Smakkið súpuna til og bætið ef til vill meiri fiskisósu út í og jafnvel smá sykri.

Bætið súpunni í skálarnar (ofan á núðlurnar, baunaspírurnar og limesneiðarnar) og látið hana standa í 2 mínútur til að brögðin nái að blandast. Skreytið með fersku kóriander eða basiliku  og leggið rauðu chilistrimlana yfir.



Mexíkósk kjúklingasúpa

$
0
0

Ég elska mexíkóskar kjúklingasúpur og hef prófað ótal uppskriftir en þessi stendur alltaf upp úr. Uppskriftin kemur úr gömlu Bistró-blaði og er bæði einföld og fljótleg. Mér finnst sjaldan hægt að fylgja súpuuppskriftum nákvæmlega heldur alltaf þurfa að smakka þær til, eins og með flestan annan mat. Með þessa uppskrift finnst mér ég oftast þurfa að bæta við meiri krafti eða chili sósu. Ég set líka oft smá karrý út í súpuna og finnst það gefa mjög gott bragð.

Mexíkósk kjúklingasúpa

  • 2 kjúklingabringur
  • salt
  • 1/2 blaðlaukur, smátt saxaður
  • 1 rauð paprika, smátt söxuð
  • 1 msk ólívuolía
  • 1 líter vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 dós saxaðir tómatar
  • 4 msk chili-sósa
  • 3 msk tómatþykkni (tomato paste)
  • 100 gr rjómaostur
  • nachos-flögur
  • rifinn ostur
  • sýrður rjómi

Byrjaðu á að sjóða kjúklingabringurnar í vatni með smá salti þar til þær eru eldaðar í gegn. Það tekur ca 8 mínútur. Taktu þær úr vatninu og skerðu í litla bita.

Steiktu blaðlaukinn og paprikuna í ólífuolíunni við miðlungs hita. Hitaðu vatnið í potti og leystu kjúklingateninginn upp í vatninu. Bættu grænmetinu út í kjúklingasoðið ásamt hökkuðum tómötum, chili-sósu og tómatmauki og leyfðu súpunni að malla við vægan hita í 10 mínútur (ég einfalda þetta oftast með því að steikja grænmetið í súpupottinum og hella svo vatninu beint yfir grænmetið og spara mér þar með uppvaskið á pönnunni).

Bættu rjómaostinum í súpuna í litlum skömmtum og láttu hana malla aðeins á milli svo að rjómaosturinn leysist upp. Bættu að lokum kjúklingabitunum út í.

Súpuna ber ég alltaf fram með sýrðum rjóma, rifnum osti (ferskrifinn cheddar er í uppáhaldi þessa dagana) og nachos.


Blómkálssúpa

$
0
0

Ég var ekkert að flækja hlutina í kvöld og eldaði blómkálssúpu í matinn. Okkur finnst hún alltaf jafn góður og notalegur matur. Blómkálssúpuna elda ég oft enda einföld, fljótleg og að mínu mati mjög góður hversdagsmatur. Það þarf bara að eiga blómkálshaus og smá rjómaslettu til að geta töfrað fram góðan kvöldverð á svipstundu.  Ég á alltaf baguette brauð frá Délifrance í frystinum sem ég kaupi frosið í matvörubúðinni og þykir þægilegt að geta gripið í og hitað til að hafa með súpunni.

Ég geri alltaf súpur frá grunni og get ekki ímyndað mér að pakkasúpur séu góðar. Það er án nokkurns vafa hægt að finna fínni uppskriftir að blómkálssúpum en okkur þykir þessi svo góð og hún klikkar aldrei.  Í kvöld ákvað ég að skrifa niður hvernig ég geri súpuna ef einhvern langar að prófa. Uppskriftin er ekki heilög og mér dytti ekki í hug að fara út í búð eftir öðru hráefni en blómkálinu. Ef ég á ekki rjóma þá nota ég meiri mjólk, ef ég á ekki grænmetistening þá nota ég bara kjúklingatening og öfugt. Það virðist ekki skipta neinu máli, súpan verður alltaf góð.

Blómkálssúpa

  • stór blómkálshaus
  • 50 gr smjör
  • 1 dl hveiti
  • 6-7 dl soð
  • 2 dl rjómi
  • 3 dl mjólk
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 kjúklingateningur
  • hvítur pipar
  • salt

Skerið blómkálshausinn niður og setjið í pott. Hellið vatni þannig að rétt fljóti yfir og sjóðið þar til blómkálið verður mjúkt.

Í öðrum potti er smjörið brætt og hveitinu hrært saman við. Bætið blómkálssoðinu smám saman í pottinn og hrærið vel á milli. Bætið rjómanum, mjólkinni og teningunum út í. Leyfið að sjóða saman um stund og smakkið til með hvítum pipar og salti. Ef súpan er bragðlítil þá er bætt við meiri krafti. Bætið að lokum blómkálinu í pottinn og leyfið að sjóða saman um stund áður en súpan er borin fram.

Ég leyfi töfrasprotanum stundum að mauka blómkálið áður en ég ber súpuna fram og hef alltaf brauð með súpunni.


Ofnbakaður grjónagrautur

$
0
0

Ég var með kvöldmat sem við hjónin erum hvorugt sérlega hrifin af en krakkarnir elska, grjónagraut og lifrapylsu. Ég elda grjónagraut eins sjaldan og ég kemst upp með en annað slagið læt ég það eftir krökkunum.

Þar sem ég er óspennt fyrir grjónagrautnum er áhuginn fyrir að standa yfir pottinum og passa að hann brenni ekki við botninn mjög takmarkaður. Að elda grautinn í ofninum hentar mér mun betur og kvöldmaturinn getur varla orðið einfaldari en þetta. Grauturinn sér um sig sjálfur í ofninum og það þarf ekki að svo mikið sem að líta á hann á meðan.

Grjónagrautur í ofni

  • 2,5 dl hrísgrjón (t.d. frá River)
  • 1,25 líter nýmjólk
  • nokkrar smjörklípur
  • 1 tsk salt
  • 1 msk sykur

Hitið ofninn í 175°. Blandið öllum hráefnum saman í stórt eldfast mót (amk 2 lítra). Setjið álpappír yfir og bakið í miðjum ofni í ca 1,5 klst. (það er í lagi að sleppa álpappírnum því það myndast himna yfir grautinn sem er síðan flett af).

Þegar grauturinn er tilbúinn er efsta laginu á honum flett af og hrært vel í honum. Þynnið grjónagrautinn með mjólk ef þörf er á.


Himnesk kjúklingasúpa með ferskjum

$
0
0

 

Í gær fékk ég í hendurnar nýjasta Gestgjafann þar sem meðal annars er þáttur eftir litlu mig. Mér þótti mikill heiður að vera beðin um að gera þrjár síður fyrir blaðið og hafði æðislega gaman af. Það var mjög spennandi að fá Gestgjafann í hendurnar í gær og ég ætlaði varla að þora að opna hann. Í blaðinu gef ég fljótlegar uppskriftir fyrir saumaklúbbinn sem eru allar mjög góðar og ég get lofað því að ykkur á eftir að þykja súkkulaðikakan með kókosnum æðislega góð. Drífið ykkur nú og kaupið blaðið, það er stútfullt af girnilegum uppskriftum.

Ég var að fara í gegnum myndirnar í tölvunni og rakst þá á þessar myndir af kjúklingasúpu sem ég gerði fyrir nokkrum vikum og átti alltaf eftir að setja inn. Ég skil ekki hvernig það gat gerst því ég elska þessa súpu.

Uppskriftin kemur frá Beggu frænku minni og þegar hún bauð mér í súpuna í fyrsta sinn þá kolféll ég fyrir henni og varð ekki róleg fyrr en hún var búin að gefa mér uppskriftina. Súpan er ekki síðri daginn eftir og því sniðugt að bjóða upp á hana í afmælum eða saumaklúbbum og geta þá undirbúið hana deginum áður.

Kjúklingasúpa með ferskjum

  • 1 stór laukur (smátt saxaður)
  • smjör
  • 3-4 tsk karrýmauk (ég nota  Pataka´s mild curry paste, coriander & cumin)
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 ½  dós niðursoðnir tómatar
  • 5 dl kjúklingasoð (vatn og 2 kjúklingateningar)
  • 1 lítil dós tómatpuré
  • 1/2 líter rjómi
  • 1 stór dós niðursoðnar ferskjur
  • 3 kjúklingabringur.

Bræðið smjör og karrýmauk í potti og bætið lauknum í. Látið laukinn mýkjast við vægan hita. Bætið tómötum, tómatpuré, kjúklingasoði, hvítlauk og rjóma saman við og látið sjóða við vægan hita í ca 10 mínútur.

Skerið ferskjurnar smátt niður og bætið út í ásamt safanum. Látið sjóða áfram í aðrar 10 mínútur.

Skerið kjúklingabringurnar smátt og steikið á pönnu upp úr smjöri. Saltið með maldonsalti. Bætið kjúklingabitunum út í súpuna og látið hana sjóða í 5 mínútur til viðbótar.


Mexíkósk kjötsúpa

$
0
0

Ég er búin að eiga alveg frábæran matardag í dag. Ég byrjaði daginn á dásamlegu heimabökuðu grófu brauði, í hádeginu fór ég svo með vinkonum mínum á Happ þar sem ég fékk æðislega kjúklingasamloku og í kvöldmat eldaði ég síðan mexíkóska kjötsúpu sem mér þykir svo haustleg.

Þessi súpa er æðisleg á svona kvöldum. Þegar það er dimmt og kalt úti þá þykir mér svo notalegt að sitja inni með súpuskál. Það tekur stutta stund að útbúa hana og hún er mjög fjölskylduvæn. Ég ber hana ýmist fram með nýbökuðu baguette brauði eða nachos flögum.  Í kvöld bar ég hana þó fram með hvítlauksbrauði sem okkur fannst ekki svo galið með.

Ég held að uppskriftin komi upphaflega úr sænskri matreiðslubók sem er ætluð fyrir barnafjölskyldur og heitir Kom in och ät, eða Komið inn og borðið. Ég fann uppskriftina hins vegar í sænsku tímariti sem heitir Family Living þar sem höfundur matreiðslubókarinnar gaf nokkrar uppskriftir, hverri annarri girnilegri.

Mexíkósk kjötsúpa

  • 200 gr nautahakk
  • 1 laukur, fínhakkaður
  • 1 rifið hvítlauksrif
  • 3 msk ólívuolía
  • 2 tsk cummin
  • 2 tsk paprikuduft
  • 1 tsk karrý
  • 1 msk oreganó
  • 3 msk tómatpuré
  • 1 líter kjötkraftur (vatn og 1-2 kjötkraftsteningar, mér þykir gott að nota nauta- og grænmetisteninga)
  • 4 kartöflur, skornar í teninga
  • 1 rauð paprika, fínhökkuð

Steikið lauk og hvítlauk í olíunni og leggið til hliðar. Steikið nautahakk með kryddum og tómatpuré. Bætið laukunum út í ásamt kjötkrafti, kartöflum og papriku. Sjóðið í 30 mínútur. Berið fram með sýrðum rjóma og heitu baguette.


Aspassúpa

$
0
0

Við erum öll hrifin af þessari aspassúpu og ég elda hana reglulega. Ég eldaði hana um daginn og tók myndir en týndi síðan miðanum sem ég hafði skrifað uppskriftina á. Eftir að ég byrjaði að blogga er ég farin að vera með blað og penna við eldavélina og skrifa niður það sem fer ofan í pottana. Síðan fara miðarnir stundum á flakk og eftir sit ég með myndir en enga uppskrift. Í kvöld ákvað ég því að elda aspassúpuna aftur og skrifa uppskriftina strax inn, áður en ég týni miðanum.

Mér þykir mjög gaman að elda súpur og hef yfirleitt súpu einu sinni í viku í matinn. Það er eitthvað notalegt við að elda súpu, að smakka þær til og bragðbæta. Ég á alltaf aspasdósir í skápnum og oftast  rjómatár í ískápnum. Ef ég á ekki rjóma þá nota ég bara mjólk. Ég er því ekki í neinum vandræðum með að gera aspassúpu þegar okkur langar í hana. Það er svo einfalt að gera súpur og kvöldmaturinn er komin á borðið á svipstundu. Best þykir okkur að hafa baguette með (ég kaupi þau frosin frá Délifrance, mjög þægilegt) og dýfa því í súpuna.

Aspassúpa

  • 2 msk smjör
  • 4 msk hveiti
  • 2 dósir aspas (grænn)
  • 5 dl vatn
  • 2 dl rjómi
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 grænmetisteningur
  • salt
  • hvítur pipar

Bræðið smjörið í potti og hrærið hveitinu saman við. Hrærið safanum af aspasnum saman við í smáum skömmtum og hrærið vel á milli. Bætið vatninu og rjómanum saman við smátt og smátt og hrærið alltaf vel á milli. Setjið aspasinn og teningana út í og leyfið að sjóða um stund. Smakkið til með hvítum pipar og salti.


Rjómalöguð kjúklingasúpa

$
0
0

Við höfum legið yfir veðurfréttum síðustu daga og vonað að það fari að létta til. Planið var að keyra norður á Akureyri á morgun því Gunnar átti að fara með Gerpluhópnum að keppa í fimleikum. Við hin vorum búin að ákveða að eyða helginni á Akureyri og fylgjast með honum keppa. Það var þó tekin ákvörðun í dag um að fresta mótinu sökum veðurs, Gunnari til mikilla vonbrigða.

Ég hef eflaust sagt það áður að ég er yfirleitt með súpu í matinn einu sinni í viku. Við erum öll hrifin af súpum og mér þykir svo gaman að elda þær, að smakka þær til og dekra við þær.  Síðan er eitthvað svo notalegt við það að sitja inni í hlýjunni með súpu þegar það er svona kalt úti. Í gær eldaði ég rjómalagaða kjúklingasúpu sem var dásemdin ein og alveg fullkomin í þessu kalda veðri.

Rjómalöguð kjúklingasúpa

  • 500 gr kjúklingabringur
  • smjör
  • 2 skarlottulaukar
  • 2 gulrætur
  • nokkrar matskeiðar chilisósa
  • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
  • 8 dl vatn
  • 2 kjúklingateningar (eða 1 kjúklinga- og 1 grænmetisteningur)
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 1 peli rjómi (2 ½ dl)
  • 100 gr rjómaostur
  • 2-3 lúkur af pasta
  • smá cayenne pipar
  • pipar og salt
  • púrrulaukur
  • rifinn ostur (mér þykir gott að rífa óðalsost)

Skerið kjúklinginn í bita, saxið laukinn og skerið gulræturinar í sneiðar. Steikið kjúklinginn upp úr smjöri. Þegar kjúklingurinn er að verða tilbúinn er lauknum og gulrótunum bætt út í og steikt saman þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Bætið niðursoðnum tómötum, chilisósu, vatni, rjóma og teningum út í og látið suðuna koma upp. Bætið rjómaostinum í pottinn í smáum skömmtum og látið blandast vel. Bætið pastanu í pottinn og látið sjóða þar til það er tilbúið. Smakkið til með salti, pipar og cayennepipar.

Skerið púrrulaukinn í þunnar sneiðar. Berið súpuna fram með púrrulauk, rifnum osti og góðu brauði.



Lauksúpa með beikonkurli og steiktu hvítlauksbrauði

$
0
0

Við vorum að koma heim úr frábærri konfektveislu hjá Nóa Síríusi. Gunnar var fjarri góðu gamni þar sem hann var á fimleikaæfingu en Malín og Jakob komu með okkur og voru í skýjunum yfir boðinu. Þetta var algjört súkkulaðihimnaríki sem við nutum góðs af undir ljúfum tónum og skemmtiatriðum. Um leið og við mættum sáum við undir yljarnar á Jakobi sem var staðráðinn í að missa ekki af neinu og smakkaði hvern einasta mola sem í boði var. Þegar hann kom að súkkulaðigosbrunninum stakk hann glasi undir og fékk sér sjúss. Hann kann að gera vel við sig.

Jakob var svo heppinn að vinna konfektkassa af stærstu gerð í happdrætti og þar að auki voru allir gestir leystir út með veglegum gjöfum, konfektkassa og vandaðri bók, Súkkulaðiást. Börnin voru kvödd með gjafapoka, fullum af  sælgæti, sem vakti mikla lukku.

Eftir þessa veislu var enginn svangur og því fór lítið fyrir kvöldmatnum hjá okkur. Ég eldaði hins vegar frábæra súpu í síðustu viku sem hefur ekki enn verið birt hér. Ég nýti mér það og gef uppskriftina því núna.

Lauksúpa með beikonkurli og steiktu hvítlauksbrauði

  • 2-3 msk smjör
  • maizena
  • 6-7 laukar
  • 7,5 dl vatn
  • 2,5 dl rjómi
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 msk hakkað ferskt timjan (eða 1 tsk þurrkað)
  • smá af hvítum pipar
  • 170 g beikon
  • baquette
  • hvítlauksrif

Skerið laukinn í þunnar sneiðar og mýkið í smjöri við vægan hita. Laukurinn á ekki að brúnast heldur bara að verða mjúkur. Hellið vatni og rjóma yfir og setjið teninga og krydd út í. Látið sjóða við vægan hita í 15-20 mínútur og þykkið með maizena.

Skerið beikonið niður og steikið á pönnu. Þegar beikonið er tilbúið er það tekið af pönnunni og lagt á eldhúspappír. Ekki þrífa pönnuna.

Skerið baquette í sneiðar. Hitið ólivuolíu á pönnunni sem að beikonið var steikt á, pressið hvítlauksrif út í og steikið baquette-sneiðarnar.

Berið súpuna fram með beikonkurlinu og hvítlauksbrauðinu.


Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

$
0
0

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Eftir allan hátíðarmatinn var okkur farið að dreyma um létta máltíð og súpa og brauð var efst á óskalistanum. Það vildi mér til happs að ég rakst á uppskrift að papriku- og kartöflusúpu með fetaostmulningi þegar ég var að skoða myndir í símanum mínum. Ég tek oft myndir á símann þegar ég rekst á spennandi uppskriftir og þessa uppskrift hafði ég séð í dönsku blaði (sem ég þori eiginlega að veðja á að hafi verið Spis Bedre). Ég ákvað að prófa að elda súpuna og hún vakti stormandi lukku. Með súpunni bar ég fram New York Times-brauðið sem er alltaf jafn gott og svo ótrúlega einfalt að baka.

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Þeir sem fylgjast með mér á Instagram eru þegar búnir að sjá mynd af herlegheitunum en hér kemur uppskriftin fyrir þá sem vilja prófa.

Papriku- og kartöflusúpa

  • 1 laukur
  • 4 miðlungsstórar kartöflur
  • 4 rauðar paprikur
  • 2 kjúklingateningar (ég notaði 1 kjúklinga- og 1 grænmetistening)
  • ólífuolía
  • 1 tsk salt
  • nýmalaður pipar

Til skrauts

  • 150 g fetaostur (fetakubbur sem er mulinn niður)
  • 1 msk ólífuolía
  • fersk steinselja eða mynta (eða 2 tsk þurrkuð mynta)

Hitið 1 líter að vatni að suðu. Hakkið laukinn, skrælið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar. Hreinsið paprikuna og skerið þær í strimla.

Stekið laukinn í 2 msk af ólívuolíu í stórum potti í 3 mínútur. Bætið kartöflum í pottinn og steikið áfram í 3 mínútur. Bætið papriku í pottinn og steikið áfram í aðrar 3 mínútur. Myljið teninga yfir og hellið helmingnum af soðna vatninu yfir. Látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur.

Takið pottinn af hitanum og maukið súpuna með töfrasprota. Þynnið súpuna með því sem eftir var af soðna vatninu þar til óskaðri þykkt er náð. Kryddið með salti og pipar.

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi


Basiliku og parmesan tómatsúpa

$
0
0

Basiliku og parmesan tómatsúpa

Fyrir nokkrum árum kom Jakob þeirri hefð á að hafa súpu í matinn eitt kvöld í viku. Hann fékk snemma æði fyrir súpum og það virðist ekki ætla að eldast af honum. Hann sýnir súpugerðinni mikinn áhuga, fylgist vel með því sem fer í pottinn og smakkar þær til. Það er svo gaman að fylgjast með honum, hann er svo einbeittur  við þetta og hefur oftar en ekki rétt fyrir sér varðandi hvað þarf til að gera súpuna góða.

Ég er því alltaf á höttunum eftir nýjum súpuuppskriftum og þessa fann ég á Pinterest. Uppskriftina átti upphaflega að elda í fleiri klukkutíma en það hentaði nú ekki í hversdagsamstrinu. Ég byrjaði því á að breyta eldunaraðferðinni og efast um að það hafi komið niður á bragðinu.

Súpan er elduð á þann máta að hún er þykkt með uppbakaðri smjörbollu í lok eldunartímans. Það er að sjálfsögðu hægt að sleppa því en mér þótti það gefa súpunni bæði góða fyllingu og áferð. Smjörbollan er látin hitna vel í pottinum sem gerir það að verkum að smjörið byrjar að brúnast og fær smá hnetukeim. Æðislega gott og gefur súpunni skemmtilegt bragð.

Súpan er mjúk og góð. Hún ætti að falla vel í kramið hjá tómatsúpuunendum og passar vel í þeim flensufaraldri sem nú gengur yfir landið.

Basiliku og parmesan tómatsúpa

  • 2 dósir hakkaðir tómatar
  • 1 bolli sellerý, skorið fínt niður
  • 1 bolli gulrætur, skornar fínt niður
  • 1 bolli fíhakkaður laukur
  • 1 tsk óregano (1 msk ef notað er ferskt)
  • 1 msk basil (1/4 bolli ef notað er ferskt)
  • 4 bollar vatn
  • 2 kjúklingateningar
  • ½ lárviðarlauf
  • 1 bolli parmesan ostur
  • ½ bolli hveiti
  • ½ bolli smjör
  • ½ líter matreiðslurjómi
  • salt og pipar

Bræðið smá smjör eða setjið ólífuolíu í botninn á stórum potti og mýkjið gulrætur, sellerý og lauk við miðlungsháan hita. Bætið tómötum, vatni, kjúklingateningum, oregano, basiliku og lárviðarlaufi í pottinn og látið sjóða í 30 mínútur.

Bræðið smjör við miðlungsháann hita í öðrum potti og hrærið hveitinu saman við. Hrærið stöðugt í blöndunni í 3-5 mínútur. Hrærið varlega 1 bolla af súpunni saman við. Bætið þar á eftir 3 bollum til viðbótar og hrærið þar til blandan er orðin mjúk. Setjið allt aftur í súpuna og hrærið vel í. Blandið matreiðslurjóma, rifnum parmesan, salti og pipar út í og látið suðuna koma upp. Látið sjóða um stund við vægan hita og smakkið til með oregano, basiliku, salti og pipar. Berið súpuna fram með góðu brauði.


Gúllassúpa með nautahakki

$
0
0

Gúllassúpa með nautahakki

Ég skammast mín fyrir hvað ég hef sinnt blogginu illa síðustu daga. Dagarnir bara líða hjá án þess að nokkuð gerist. Ég vona að ég sé ekki að valda ykkur vonbrigðum og að þessi bloggþurrkur fari að ganga yfir. Ég er nokkuð viss um að ég verði farin að blogga aftur daglega áður en ég veit af. Jafnvel strax á morgun.

Gúllassúpa með nautahakki

Við Öggi gerðum okkur dagamun um helgina og eyddum nótt á Hótel Stykkishólmi. Okkur finnst notalegt og stemmning í því að fara út að borða og á hótel saman. Við keyptum okkur nammi áður en við lögðum af stað og töluðum svo mikið á leiðinni að Öggi þurfti tvisvar að snúa við því við höfðum keyrt framhjá beygjum. Á leiðarenda komumst við þó fyrir rest og nutum hverrar mínútu af ferðinni. Okkur fannst þó óneitanlega gott að komast aftur í veðurblíðuna hér í borginni því á Snæfellsnesinu var snjór. Lítið vissum við hvað beið okkar!

Gúllassúpa með nautahakki

Það er langt síðan ég gaf uppskrift að súpu og þessi gúllassúpa er hreinlega of góð til að birta ekki hér á blogginu. Krakkarnir elska hana og hún er alltaf jafn vinsæll kvöldmatur. Það er kjörið að baka New York Times-brauðið og bera fram með henni. Ódýr, einföld og æðislega góð máltíð.

Gúllassúpa með nautahakki

  • 400 g nautahakk
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 1 stór gulrót
  • 2-4 kartöflur
  • 1 laukur
  • 1 rauð paprika
  • smjör til að steikja í
  • 1 grænmetisteningur
  • 1/2 líter vatn
  • 2 msk sojasósa
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 tsk cummin
  • 1 tsk paprikuduft
  • salt og pipar (og ef til vill smá cayennepipar)
  • sýrður rjómi til að bera fram með súpunni

Steikið nautahakkið og leggið til hliðar. Hakkið lauk, kartöflur, papriku og gulrót í litla bita og steikið í smjöri í stórum potti. Hellið vatninu yfir og bætið grænmetistening, cummin, paprikuduft, sojasósu, pressaðan hvítlauk og hökkuðum tómötum saman við. Setjið nautahakkið í pottinn og látið sjóða þar til kartöflurnar og gulræturnar eru orðin mjúk. Smakkið til með salti og pipar og ef til vill meiri sojasósu. Ef þið viljið fá sterkara bragð af súpunni setjið þá smá cayennepipar út í.

Berið súpuna fram með sýrðum rjóma og góðu brauði.


Blómkálssúpa með beikoni

$
0
0

Blómkálssúpa með beikoni Það virðist við hæfi að kveikja á kertum og hlýja sér við eldhúsborðið yfir góðri súpu í þessu fárviðri. Reyna að gera það besta úr stöðunni og hafa það notalegt heima fyrir með því að elda mat, horfa á góðar bíómyndir og taka í spil. Blómkálssúpa með beikoni Krakkarnir fá ekki nóg af blómkálssúpu (uppáhalds uppskriftin er hér) og ég elda hana ansi oft, enda bæði ódýr og góð máltíð. Mér þykir þó alltaf svo spennandi að prófa nýjungar og þegar ég rakst á þessa uppskrift á sænsku matarbloggi var ég fljót að setja hana á matseðilinn. Blómkálssúpa með beikoni Verður ekki allt aðeins betra með beikoni? Ég er farin að hallast að því. Mér þótti beikonið lyfta soðna fiskinum upp á hærra plan (uppskrift hér) og ekki var það síðra með blómkálssúpunni. Súpan ein og sér er líka sérlega bragðgóð. Dásamlega góð máltíð sem vert er að prófa. Blómkálssúpa með beikoni

  • 1 blómkálshaus
  • 1 lítill laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 grænmetisteningur
  • 3 dl vatn
  • 3 dl rjómi
  • 2 dl sýrður rjómi
  • salt og pipar
  • beikon

Skolið og skerið blómkálið í bita. Afhýðið og fínhakkið lauk og hvítlauk. Hitið ólívuolíu við miðlungshita í rúmgóðum potti og steikið lauk og hvítlauk þar til laukurinn er orðinn mjúkur og glær. Hellið vatni, rjóma, sýrðum rjóma, grænmetisteningi og blómkáli í pottinn og látið suðuna koma upp. Látið sjóða þar til blómkálið er orðið mjúkt. Maukið súpuna með töfrasprota þar til hún er slétt (má sleppa). Smakkið til með salti og pipar.

Skerið beikonið í bita og steikið þar til það er stökkt. Berið beikonið fram með súpunni.  


Núðlusúpa í boði Jakobs.

$
0
0

Kjúklingalaksa

Eins og áður hefur komið fram hér á blogginu hafa börnin séð um kvöldmatinn einu sinni í viku í október og í gær var komið að Jakobi.  Að hann valdi að elda núðlusúpu kom engum að óvörum.  Það nær engri átt hvað drengurinn getur borðað af núðlusúpum. Helst vill hann fá þær í morgunmat en þar drögum við mörkin.

Það var líf og fjör þegar Jakob tók yfir eldhúsið, rétt eins og við var að búast. Hér er hann búinn að sjóða núðlurnar og byrjaður að raða í skálarnar.

Núðlusúpa í boði Jakobs.

Í pottinum sauð súpan sem var smökkuð til þar til hún þótti “pörfekt”.

Núðlusúpa í boði Jakobs.Jakob var búinn að útbúa nafnspjöld sem hann setti á eldhúsborðið.  Hann borðar ekki kóriander en er þeim mun hrifnari af baunaspírum. Diskurinn hans fékk því tvöfaldan skammt af spírunum og engan kóriander.

Núðlusúpa í boði Jakobs.Uppskriftin kemur úr sænsku matreiðslubókinni Kärlek, oliver och timjan og var með fyrstu uppskriftunum sem birtust hér á blogginu. Góð vísa er þó sjaldan of oft kveðin og því birti ég hana skammlaust aftur núna.

Núðlusúpa í boði Jakobs.

Núðlusúpa með kjúklingi

  • 200 gr eggjanúðlur
  • 4 skarlottulaukar
  • 100 gr ferskar baunaspírur eða 50 gr ferskt spínat
  • 1/2 lime í þunnum sneiðum
  • 2 kjúklingabringur
  • 1 msk jarðhnetuolía eða önnur olía
  • 5 cm bútur af fersku engiferi
  • 2 hvítlauksrif
  • 1/2 – 1 ferskt rautt chili
  • ca 2 msk rautt curry paste
  • 4 dl kókosmjólk
  • 4 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 1-2 msk fiskisósa
  • ferskt kóriander eða basilika

Takið hýðið af laukunum og skerið hann í þunnar sneiðar. Skolið baunaspírurnar eða spínatið vel. Skolið lime-ið og skerið í mjög þunnar sneiðar. Skrælið engiferið og skerið í örþunnar sneiðar. Takið hýðið af hvítlauknum og skerið í þunnar sneiðar. Fræhreinsið chili og skerið í þunna strimla. Skerið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar. Leggið þetta til hliðar á meðan súpan er undirbúin.

Leggið núðlurnar í pott með sjóðandi vatni og sjóðið þar til þær eru tilbúnar (ca 5 mínútur). Látið renna af núðlunum í sigti og skiptið þeim í 3 skálar. Setjið laukinn, baunaspírurnar eða spínatið og limesneiðarnar ofan á.

Steikið hvítlaukinn í olíu, bætið engiferi og curry paste í pottinn. Það er mikilvægt að láta curry paste-ið hitna það mikið að það sjóði því þá fyrst kemur bragðið fram og það fer að ilma dásamlega í eldhúsinu.

Bætið núna kókosmjólkinni saman við í smáum skömmtum. Hrærið vel á milli þannig að curry paste-ið nái að blandast vel með kókosmjólkinni í hvert skipti. Bætið síðan vatninu út í og kjúklingakraftinum. Látið suðuna koma upp og bragðbætið með fiskisósunni. Leggið kjúklingabitana í og látið sjóða í 5-7 mínútur eða þar til kjúlingabitarnir eru soðnir í gegn. Smakkið súpuna til og bætið ef til vill meiri fiskisósu út í og jafnvel smá sykri.

Bætið súpunni í skálarnar (ofan á núðlurnar, baunaspírurnar og limesneiðarnar) og látið hana standa í 2 mínútur til að brögðin nái að blandast. Skreytið með fersku kóriander eða basiliku  og leggið rauðu chilistrimlana yfir.


Blómkálssúpa

$
0
0

Blómkálssúpa

Mér þykir svo gott að vera með léttan kvöldverð annað slagið og þá koma súpur alltaf fyrst upp í hugann. Ég elska allt við þær, nýt þess að elda þær og finnst þær vera léttar og góðar í maga. Mér þykir þó nauðsynlegt að bera súpur fram með góðu brauði, helst nýbökuðu með stökkri skorpu. Ég baka yfirleitt New York Times-brauðið þegar ég ætla að bjóða upp á brauð með mat, enda þykir okkur það dásamlega gott og það tekur nákvæmlega enga stund að útbúa það. Hráefnið er svo einfalt að það er alltaf til í skápnum og það eina sem þarf að huga að er að hræra í deigið kvöldinu áður. Ég veit ekki hversu oft ég hef læðst fram úr rúminu, kveikt ljósin í eldhúsinu og hrært í deigið áður en ég fer aftur í rúmið, því að ég áttaði mig allt í einu á því að það stóð súpa á matseðlinum daginn eftir. Stundum gleymi ég mér þó alveg og þá er málunum reddað á annan hátt.

Blómkálssúpa

Þessi uppskrift kemur úr The Pioneer Woman cooks, Food From My Frontier. Ég hef áður birt æðislega uppskrift úr þessari bók (þú finnur hana hér) og þessi var ekki síðri. Það er engin furða að bókin var ein af mest seldu matreiðslubókum í Bandaríkjunum 2013 því uppskriftirnar virðast hver annarri betri.  Þessi blómkálssúpa er æðisleg en það var ekki fyrr en ég hellti vökvanum í pottinn sem ég áttaði mig á því hvað uppskriftin er stór. Hún er fyrir 10-12 manns og við vorum þrjú í mat! Ég náði sem betur fer að bjóða vinkonu Malínar til að borða með okkur og restina setti ég í nokkur nestisbox og inn í frysti. Það hentar mér mjög vel að geta gripið súpubox úr frystinum á morgnana til að eiga sem nesti í hádeginu og krökkunum að geta hitað sér hana þegar þau koma svöng heim.

Blómkálssúpa Pioneer Woman (lítillega breytt uppskrift fyrir 10-12)

  • 110 g smjör
  • 1/2 laukur, fínhakkaður
  • 1 gulrót, skorin í litla teninga
  • sellerý (ég sleppti því), skorið í litla teninga
  • 1 blómkálshaus, grófhakkaður
  • 8 bollar vatn
  • 2 grænmetisteningar
  • 1 kjúklingateningur
  • 6 msk hveiti
  • 2 bollar mjólk
  • 1 bolli matreiðslurjómi
  • salt og pipar
  • 1 stútfullur bolli sýrður rjómi

Bræðið 55 g af smjöri yfir miðlungshita í rúmgóðum potti. Setjið laukinn í pottinn og steikið (eða kannski öllu heldur sjóðið) í smjörinu þar til hann er mjúkur og gegnsær, það tekur um þrjár mínútur. Bætið gulrót og sellerý í pottinn, hrærið saman við laukinn og steikið í tvær mínútur til viðbótar. Bætið blómkáli saman við, hrærið vel í pottinum, setjið lok á hann og látið sjóða við mjög vægan hita í 15 mínútur. Setjið vatn, kjúklinga- og grænmetisteninga í potttinn og látið sjóða í 10 mínútur.

Á meðan súpan sýður er útbúin einföld hvít sósa. Bræðið það sem eftir var af smjörinu (55 g) í potti yfir miðlungsháum hita og hrærið síðan hveitinu saman við. Látið sjóða við vægan hita í 2 mínútur og hrærið síðan mjólkinni saman við í smáum skömmtum. Takið pottinn af hitanum og hrærið matreiðslurjómanum saman við.

Hrærið hvítu sósunni út í blómkálssúpuna, látið suðuna koma upp og smakkið til með salti og pipar. Látið súpuna sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur. Hún mun þykkna örlítið á meðan hún sýður.

Þegar súpan er borin fram er sýrði rjóminn settur í botn á súpuskál og súpunni hellt yfir. Þar sem við vorum svo fá í mat þá setti ég  væna skeið af sýrðum rjóma í botninn á súpuskálunum okkar og svo settum við súpuna yfir. Það er síðan hrært varlega í súpunni þannig að sýrði rjóminn blandist vel við hana. Berið fram með góðu brauði.

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP



Kjúklingasúpan hennar mömmu

$
0
0

Marókósk kjúklingasúpa

Í gær fórum við í 4 tíma hjólatúr sem endaði í mat hjá mömmu. Veðrið var yndislegt og við komum víða við á leið okkar. Stoppuðum meðal annars í ísbúð, á leikvöllum og í Elliðarárdalnum. Mamma tók síðan á móti okkur með æðislegri súpu og ekki síðri eftirrétt. Við ætluðum ekki að getað hætt að borða og ég var ekki lengi að sníkja uppskriftinar til að geta sett hingað inn. Þessa verðið þið að prófa!

Marókósk kjúklingasúpaMarókósk kjúklingasúpaMarókósk kjúklingasúpaMarókósk kjúklingasúpa

Marókósk kjúklingasúpa

Kjúklingasúpan hennar mömmu (fyrir 8)

  • 4 kjúklingabringur, skornar í bita og steiktar
  • 3 paprikur, helst ein í hverjum lit (gul/appelsínugul, rauð og græn)
  • 1 laukur, saxaður
  • 1 púrrulaukur, skorinn í sneiðar
  • 3 pressuð hvítlauksrif
  • 1 msk moroccan krydd frá Nomu (mamma notaði Tikka India Spice frá Santa Maria)
  • 1 líter vatn
  • 4 kjúklingateningar
  • 5 dl matreiðslurjómi
  • 1 askja rjómaostur (400 g)
  • 1 flaska Heinz chilli sósa
  • 2-4 msk sweet chilli sósa

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið. Leggið til hliðar.

Skerið grænmetið niður og steikið með kryddinu í rúmgóðum potti. Bætið öllu öðru hráefni í pottinn fyrir utan kjúklinginn og látið sjóða við vægan hita í 30 mínútur. Smakkið til. Bætið kjúklingnum í pottinn og látið sjóða í nokkrar mínútur til viðbótar.

Berið súpuna fram með góðu brauði.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP


Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum

$
0
0

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum

Ég veit ekki um neinn sem er jafn hrifinn af núðlusúpum og Jakob. Hann gæti lifað á þeim. Ég er því alltaf á höttunum eftir góðum núðlusúpuuppskriftum og þegar ég rakst á þessa tælensku núðlusúpu á Pinterest um daginn var ég fljót prófa hana.

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum

Núðlusúpan var æðisleg! Hún var bragðmikil en ekki sterk, hnetusmjörið gaf gott bragð án þess að vera yfirgnæfandi og fór stórvel með karrýmaukinu. Kóriander og salthnetur settu síðan punktinn yfir i-ið. Útkoman var einstaklega ljúffeng súpa sem sló í gegn við matarborðið. Það eina sem ég vil benda á er að freistast ekki til að setja allan núðlupakkann út í súpuna því þá breytist hún í núðlurétt þegar hún kólnar.

Þessa súpu tekur enga stund að útbúa og hún er því fullkominn föstudagsmatur!

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum

Tælensk núðlusúpa með kjúklingi og sætum kartöflum (uppskrift fyrir 4-5)

  • 1 dós kókosmjólk
  • 1/4 bolli rautt karrýmauk (red curry paste). Ég notaði frá Blue dragon.
  • 4 bollar vatn
  • 2 kjúklingateningar
  • 450 g kjúklingabringur eða -lundir, skornar í bita
  • 1 bolli sæt kartafla, afhýdd og skorin í teninga
  • 1/3 bolli hnetusmjör
  • 1 msk tamarind sósa eða 1/4 bolli limesafi
  • 2 msk fiskisósa (fish sauce) eða sojasósa
  • 2 msk púðursykur
  • 1/2 tsk turmerik
  • 1 rauð paprika, skorin í þunnar sneiðar
  • 160 g núðlur (rice noodles)
  • 2 bollar baunaspírur
  • 1/4 bolli ferskt kóriander
  • 1/4 bolli salthnetur
  • vorlaukur, sneiddur

Hitið þykka hlutann sem er efst í kókosmjólkurdósinni í rúmgóðum potti yfir miðlungsháum hita. Bætið karrýmaukinu saman við og látið sjóða saman í um mínútu. Bætið því sem eftir er í kókosmjólkurdósinni saman við ásamt vatni, kjúklingateningum, sætum kartöfluteningum, hnetusmjöri, tamarind sósu, fiskisósu, púðursykri og turmerik. Látið suðuna koma upp, lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður og sætu kartöflurnar mjúkar. Það tekur um 7-10 mínútur, eftir því hvað bitarnir eru stórir. Bætið papriku og núðlum í pottinn og sjóðið þar til núðlurnar eru mjúkar, það tekur um 5 mínútur. Bætið baunaspírum saman við og takið síðan af hitanum.

Berið núðlusúpuna fram með kóriander, hökkuðum salthnetum og vorlauki.

 Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP


Gulrótar- og tómatsúpa með kókosmjólk

$
0
0

Gulrótar, tómata og kókossúpa Ég hef oft lýst hér dálæti mínu á súpum og er yfirleitt með súpu í kvöldmatinn einu sinni í viku. Það hefur hins vegar ekki komið fram að ég borða oftar en ekki súpu í hádeginu og með það í huga að spara mér hádegissúpukaupin ákvað ég að taka mig til og elda súpu til að eiga í nestisboxum í frystinum. Gulrótar, tómata og kókossúpa

Fyrir valinu varð þessi gulrótar- og tómatsúpa sem ég fann á dásamlegri síðu, Green Kitchen Stories. Súpan er einföld, ódýr og góð. Enginn veislumatur en stórgóður hversdagsmatur. Ég var með hana í kvöldmat og gerði síðan annann skammt sem ég skipti niður í nestisbox og frysti. Það er skemmst frá því að segja að súpan komst aldrei með mér í vinnuna, eins og upphaflega stóð til, heldur nutu vinkonur og heimilismenn notið góðs af henni með mér hér heima við. Stundum getur verið mikill fjársjóður að eiga heimalagaðan tilbúinn mat í frystinum, og kannski sérstaklega í einstaklingsskömmtum, sem tekur ekki nema nokkrar mínútur að koma á borðið þegar vinkonur líta óvænt við í hádeginu eða krakkarnir koma svangir heim.

Gulrótar- og tómatsúpa með kókosmjólk (fyrir 4-6)

  • 1 msk kókosolía eða ólívuolía
  • 1 laukur, hakkaður
  • 2 hvítlauksrif, hökkuð
  • 1 tsk túrmerik
  • 10 gulrætur, skolaðar og sneiddar
  • 1 dós (400 g) plómutómatar eða um 5 hakkaðir ferskir tómatar
  • vatn, nóg til að fljóti yfir
  • sjávarsalt og svartur pipar
  • 1 dós (400 g) kókosmjólk

Hitið olíu í potti. Bætið lauki, hvítlauki og túrmerik í pottinn og steikið við vægan hita þar til mjúkt. Bætið gulrótum og tómötum í pottinn og eldið í um mínútu, hrærið í pottinum á meðan. Hellið vatni yfir þannig að rétt fljóti yfir og kryddið með sjávarsalti og pipar. Látið sjóða við vægan hita í 15-20 mínútur eða þar til gulræturnar eru orðnar mjúkar. Maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél, bætið síðan kókosmjólk saman við og smakkið til. Ef súpan er bragðdauf getur verið gott að setja smá grænmetis- eða kjúklingakraft í hana.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP


Vinsælustu uppskriftir ársins 2014

$
0
0

Vinsælustu uppskriftir ársins 2014

Eins og mér þykir gaman að taka fram jólaskrautið fyrir aðventuna þá finnst mér líka alltaf jafn gott að pakka því niður aftur. Og á hverju einasta ári skipti ég jólaskrautinu út fyrir ferska túlípana. Mér þykir það hreinlega tilheyra því að pakka niður jólunum.

Ég hef undanfarin ár birt hér lista yfir vinsælustu uppskriftir ársins og ætla að halda í þá hefð. Mér þykir alltaf áhugavert að sjá hvaða uppskriftir það eru sem hafa vakið mestu lukku og það gleður mig að sjá tvo fiskrétti á listanum í ár. Að sama skapi er ánægjulegt að sjá sumar uppskriftir á listanum ár eftir ár. Ég bendi á að listann má vel nýta sem vikumatseðill, enda bæði fjölbreyttur og ljúffengur.

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og fetaosti er nú vinsælasta uppskrift ársins annað árið í röð. Uppskriftinni hefur verið deilt yfir 10.000 sinnum og skildi engan undra. Dásamlega góður réttur sem er í senn hollur, fljótgerður og einfaldur að útbúa.

Hakkbuff með fetaosti

Í öðru sæti er hakkabuff með fetaosti. Heimilismatur eins og hann gerist bestur!

Fiskur í okkar sósu

Í þriðja sæti er fiskur í okkar sósu. Þessi fiskréttur er einn af mínum uppáhalds og það gleður mig að sjá hann svona ofarlega á lista.

Mexíkóskur mangókjúklingur

Mexíkóskur mangókjúklingur var fjórða vinsælasta uppskrift ársins. Æðislegur réttur sem mér þykir passa sérlega vel á föstudagskvöldum.

Einföld og góð skúffukaka

Fimmta vinsælasta uppskrift ársins var í öðru sæti á listanum í fyrra. Einföld og góð skúffukaka sem svíkur engan og er ómótstæðileg með ískaldri mjólk.

Bananabrauð

Uppáhalds bananabrauðið heldur sjötta sæti listans frá því í fyrra. Ég vil ekki vita hversu oft ég hef bakað þetta brauð en við fáum ekki leið á því.

Mexíkósúpa

Í sjöunda sæti er mexíkósk kjúklingasúpa. Hér er á ferðinni uppskrift sem ég gríp oft til og hún vekur alltaf lukku. Dásamleg súpa í alla staði.

Pizza sem klikkar aldrei

Pizza sem klikkar aldrei er áttunda vinsælasta uppskriftin. Hún stendur alltaf fyrir sínu og er öruggt kort á föstudagskvöldum.

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Í níunda sæti er ofnbakaður fiskur í paprikusósu. Namm!

Milljón dollara spaghetti

Tíunda vinsælasta uppskriftin var sú vinsælasta fyrir tveimur árum, milljón dollara spaghetti. Barnvænn réttur sem slær alltaf í gegn.

Öll hráefni í þessar uppskriftir fást í

HAGKAUP

 

 

 


Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

$
0
0

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epliÞegar það er svona dimmt og kuldalegt úti þykir mér notalegt að kveikja á kertum og bjóða upp á góða súpu og brauð. Slíkar máltíðir gera lífið svo ljúft. Þessi súpa er þó einstaklega ljúf því hún er í senn æðislega bragðgóð, ofboðslega einföld og sérlega fljótgerð.

Það er upplagt að gera vel af súpunni og frysta í einstaklingsskömmtum því það er svo gott að geta tekið hana með í nesti eða gripið til hennar eftir langan dag.  Dásamleg máltíð sem vert er að prófa.

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli

Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli (uppskrift frá Arla)

  • 300 g kjúklingabringur
  • 1 laukur
  • 1 epli
  • 1 msk karrý
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar (samtals 800 g)
  • 1 dl vatn
  • 2 grænmetisteningar
  • 2 ½ dl rjómi
  • smá sykur
  • salt og pipar

Skerið kjúklinginn í litla bita, fínhakkið laukinn og rífið eplið. Steikið kjúklinginn, laukinn, eplið og karrý í smjöri þar til mjúkt. Bætið tómötum, vatni, grænmetisteningum og rjóma saman við. Látið sjóða í 5 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Smakkið til með smá sykri, salti og pipar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP


Viewing all 35 articles
Browse latest View live